8
 1-2  Ó, Drottinn Guð, mikið er nafn þitt! Jörðin er full af dýrð þinni og himnarnir endurspegla mikilleik þinn. 
 3 Þú hefur kennt börnum að lofsyngja þér. Fyrirmynd þeirra og vitnisburður þaggi niður í óvinum þínum og valdi þeim skömm. 
 4 Þegar ég horfi á himininn og skoða verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar sem þú hefur skapað –  5 þá undrast ég að þú skulir minnast mannsins, láta þér umhugað um mannanna börn.  6 Og líka, að þú lést manninn verða litlu minni en Guð! Krýndir hann sæmd og heiðri! 
 7 Þú hefur sett hann yfir allt sem þú hefur skapað, allt er honum undirgefið:  8 Uxar og allur annar fénaður, villidýrin  9 fuglar og fiskar, já, allt sem í sjónum syndir.  10 Ó, Drottinn Guð, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!