6
Vinna og peningar
Kristnir þrælar eiga að vinna vel fyrir eigendur sína og bera virðingu fyrir þeim – látum engan komast upp með að segja að kristið fólk sé lélegt til vinnu! Látum hvorki nafn Guðs né boðskap hans verða fyrir lasti í þessu sambandi. Ef eigandi þrælanna er kristinn, þá er það ekki þrælunum tilefni til að svíkjast um, heldur ættu þeir að vinna af enn meira kappi, því að þannig hjálpa þeir kristnum meðbróður.
Allt þetta skaltu kenna, Tímóteus, og hvetja fólk til að fara eftir því. Vera má að sumir hafni þessu en það er sannleikur þrátt fyrir það. Þetta er hin heilnæma kenning Drottins Jesú Krists og hún er undirstaða alls guðrækilegs lífernis. Þeir sem hafna henni, sýna þar með stolt sitt og heimsku. Þeir lenda í endalausum þrætum um skýringar á orðum Krists og vekja deilur, öfund og reiði, sem svo endar í skömmum, klögumálum og tortryggni. Hugsanir þessara orðháka eru myrkvaðar synd og þeir kunna ekki að segja satt. Fyrir þeim er trúin aðeins leið til fjár og frama. Forðastu slíka menn.
Hefur þú áhuga á að verða ríkur? Þú ert ríkur, ef þú óttast Guð og ert nægjusamur. Ekki höfum við neitt með okkur þegar við komum í þennan heim og við tökum ekki eina einustu krónu með okkur þegar við deyjum. Verum því ánægð ef við höfum í okkur og á. Þeir sem ríkir vilja verða, leiðast auðveldlega út í alls konar vitleysu, ef þeir halda að þar sé gróðavon og þannig hafa margir glatað sálarheill sinni. 10 Fégræðgin er upphaf margra synda og peninganna vegna hafa sumir snúið baki við Guði og lent í ógöngum.
11 Kæri Tímóteus, þú ert Guðs maður! Forðastu allt illt, en snúðu þér í staðinn að því sem rétt er og gott. Lærðu að treysta Guði og elska aðra menn, og vertu þolinmóður og ljúfur. 12 Manstu hve djarfur þú varst þegar þú játaðir í margra votta viðurvist að þú hefðir eignast eilífa lífið? Haltu fast í það, því að það var Guð sem gaf þér það.
13 Nú skipa ég þér, þar sem þú stendur frammi fyrir augliti Guðs, sem gefur öllu líf, og frammi fyrir Kristi Jesú, sem óhræddur bar fram játningu sína frammi fyrir Pontíusi Pílatusi. 14 Framkvæm þú allt það sem Guð bauð þér að gera, svo að enginn geti fundið neitt að þér eða bent á óheiðarleika í fari þínu, allt þar til Jesús Kristur kemur aftur. 15 Þá mun Guð láta Krist birtast í dýrð sinni – hann, hinn sæla og máttuga Guð, konung konunganna, Drottin allra drottna, 16 hinn ódauðlega, sem býr í ljósi sem enginn fær nálgast. Enginn maður hefur nokkru sinni séð hann, né mun heldur sjá. Hans er mátturinn, dýrðin og valdið um aldir alda. Amen.
17 Segðu þeim sem ríkir eru að forðast allan hroka og ekki treysta á peningana, því að þeir eyðast. Segðu þeim heldur að hrósa sér af Guði og setja traust sitt á hann, því að hann veitir okkur fúslega allt sem við þörfnumst. 18 Segðu þeim að nota peningana til þess sem gott er. Menn þessir ættu að vera ríkir af góðum verkum og gefa með glöðu geði, þeim sem þurfandi eru – vera reiðubúnir að deila með öðrum því sem Guð hefur gefið þeim. 19 Þannig gætu þeir safnað sér varanlegum fjársjóði á himnum og það er eina örugga fjárfestingin, ef eilífðin er höfð í huga! Þar að auki eiga þeir svo að lifa ávaxtaríku trúarlífi hér á jörðinni.
20 Kæri Tímóteus, láttu ekki dragast að gera það sem Guð hefur falið þér. Sumir stæra sig af þekkingu sinni, en opinbera þar með fáfræði sína. Forðastu heimskulegar deilur við slíka menn. 21 Sumir þeirra hafa týnt því sem mestu máli skiptir í lífinu: Þekkingunni á Guði.
Náð Guðs sé með þér.
Páll