39
1-2 Ég hugsaði: „Ég ætla ekki að kvarta, né segja neitt ljótt meðan óguðlegir heyra til.“ 3-4 Og ég þagði. En hið innra leið mér verr og verr. Ég hélt aftur af mér, en gremjan magnaðist í mér. Að lokum gat ég ekki orða bundist: 5 „Drottinn, fæ ég aðeins að lifa örfá ár í viðbót? 6-7 Ævi mín er lítið lengri en höndin á mér! Og í þínum augum er hún nánast ekki neitt! Maðurinn, hvað er hann? Vindblær, flöktandi skuggi! Ys hans og amstur kemur engu til leiðar. Hann rakar saman fé sem svo aðrir eyða!“
8 En á hvern vona ég þá? Drottinn, ég vona á þig!
9 Frelsa mig frá syndum mínum svo að heimskingjarnir hafi mig ekki að spotti.
10 Drottinn, ég þegi því að þú hefur talað. Ég vil ekki kvarta, því að þú hefur refsað mér.
11 Drottinn láttu refsingu þína taka enda – ég þoli ekki meira! 12 Þegar þú hirtir manninn vegna synda hans, þá er nánast úti um hann. Hann er sem mölétin flík, já, hann líður burt eins og gufa. 13 Heyr þú bæn mína, Drottinn, hlustaðu á hróp mitt! Vertu ekki hljóður við tárum mínum. Mundu að ég er gestur hér, förumaður á þessari jörð eins og forfeður mínir.
14 Miskunna þú mér, Drottinn og læknaðu mig. Lofaðu mér aftur að sjá glaðan dag áður en ég dey.