144
1 Lofaður sé Drottinn! Hann er bjargið sem líf mitt er byggt á! Hann gefur mér kraft og leikni í bardaga. 2 Hann er miskunn mín. Hann er vígi mitt, borg mín og hjálpari, skjöldur minn og athvarf. Hann leggur þjóðir undir mig.
3 Drottinn, hvers virði er maðurinn að þú ómakir þig og minnist hans? Hvers vegna skyldir þú yfirleitt skipta þér af fólki? 4 Því að maðurinn er eins og vindblær, dagar hans eins og hverfandi skuggi.
5 Drottinn, sveigðu himininn og stígðu niður! Þegar þú tyllir þér á fjöllin þá rýkur úr þeim. 6 Láttu eldingar leiftra, – skjóttu örvum þínum og tvístraðu óvinunum!
7 Réttu hönd þína niður og frelsaðu mig, dragðu mig upp úr hinum djúpu vötnum, undan ofurvaldi óvinanna. 8 Munnur þeirra er fullur af svikum og með hægri hönd sinni innsigla þeir lygi.
9 Ég vil syngja þér nýjan söng, ó Guð, og leika undir á tístrengjaða hörpu, 10 því að þú veitir konungum okkar sigur. Þú frelsar þjón þinn Davíð undan sverði dauðans. 11 Bjargaðu mér! Frelsaðu mig undan óvinum þessum, þeir bæði ljúga og svíkja. 12-15 Nú vil ég lýsa landinu þar sem Drottinn er Guð – hamingjulandinu! Þar eru synirnir hraustir og stæltir eins og þróttmikil tré. Dæturnar fagrar og prúðar eins og úthöggnar hallarsúlur. Hlöðurnar fullar af alls konar afurðum. Hjarðir þúsunda sauða liðast um hagana. Uxarnir eru klyfjaðir og ekkert skarð í múrnum. Friður hvert sem litið er, enginn maður í útlegð og glæpir horfnir af strætunum. Já, sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði.